Fréttir

 

2. maí 2014

Í gær var Firmakeppni Smára haldin á Flúðum í einstakri veðurblíðu. Góð þátttaka var í öllum greinum og góður hestakostur. Sigurbjörg Bára keppti í ungmennaflokki á Fagra-Blakk og lenti í 1.sæti. Fagri-Blakkur er 6 vetra undan Nös og Forseta og  ræktaður af bróður hennar Jóni Emil en þau eiga hann saman. Þess má geta að í fyrra þá vann Sigurbjörg Bára einnig Ungmennaflokkinn og þá var hún á alsystur Fagra-Blakks sem heitir Fjöður. Og fyrir 3 árum þá vann hún einnig og þá var hún á Forseta sjálfum föður Fagra-Blakks og Fjaðrar. Í gær keppti Sigurbjörg Bára einnig í 150 m. skeiði og var þá á Böku frá Bár. Keppendur voru 4 og lenti hún í neðsta sæti en Baka lá bara 1 sprett hjá henni.  

Fagri-Blakkur

Fagri-Blakkur

Baka

Baka

27. apríl 2014

Hreyfill og Siggi Óli mættu í Ingólfshöllina á sýninguna Ræktun 2014. Tókst sýningin vel og undirstrikaði Hreyfill vel dóminn sem hann fékk í fyrra á Selfossi. Hreyfill er kattmjúkur, viljugur og fasmikill klárhestur og hlökkum við til að sjá öll folöldin sem fæðast undan honum í sumar en þau verða 9 hér á bæ. Við eigum líka nokkur tryppi  og það elsta verður hægt að byrja að temja næsta vetur.


26. apríl 2014

Nú er Uppsveitardeild Geysis lokið og gekk okkar liði all vel. Seinasta kvöldið var tölt og skeið. Sigurbjörg Bára keppti á Blossa í tölti og lenti 6. sæti með 6.72 og Berglind keppti á Reisn og lenti í 8. sæti. Hermann keppti í skeiði á Gítar og lenti í 5. sæti. Liðið okkar lenti í 4. sæti í samanlögðu í riðlakeppninni og erum bara kát með það. Sigurbjörg Bára lenti í 6.-7. sæti í einstklingskeppninni. Mikið var af góðum hrossum og flinkum knöpum og gaman að því hvað keppnin er vinsæl og vel sótt af áhorfendum.

Úrslit tölt

Úrslit tölt

22. apríl 2014

Birnir Snær dvaldi hjá okkur um páskana og var mikið duglegur. Hann hjálpaði okkur að gefa skepnunum og best þótti honum að fara með afa í traktorinn þegar hann var að setja inn rúllur.

Byrnir Snær

Byrnir Snær

20.apríl 2014

Sigurbjörg Bára hefur verið að æfa sig í að leggja hest til skeiðs og hefur hún góða hryssu til þess, en það er hún Baka frá Bár. Böku fengum við hjá Tryggva í Bár sem folald og hefur hún verið notuð sem reiðhross hér á bænum og hún hefur líka átt 2 folöld sem nú eru 3ja og 4ra vetra. Baka er lista hross og mikið vökur, en hún er orðin 15 vetra gömul.

12. apríl 2014

Nú eru Hreyfing og Skör komnar til nýrra heimkynna en þær fóru með flugi til Svíþjóðar í gær. Leiðindabið er búin að vera eftir flugi en upphaflega átti að vera flug til Svíþjóðar um miðjan febrúar.

Nýir eigendur eru kampa kátir.

Hreyfing

Hreyfing

Skör

Skör

26. mars 2014.

Nú erum við búin að selja stóðhestinn Draum undan Kolbrúnu og Spuna. Hann verður 2 vetra í vor. Nadja Andréewitch í Svíþjóð kaupir hann af okkur en hún keypti fyrir mörgum árum einnig af okkur 2 vetra hest  sem heitir Gljái og er svo til albróðir Draums. Hann var sammæðra Draum og faðir hans er Álfasteinn sem er faðir Spuna. Nadja líkaði svo vel við Gljáa  að hún vildi endilega kaupa bróður hans.   Draumur ber með sér góðan þokka, yfirvegaður og hreyfir sig glæsilega.

Draumur 2 14 Draumur 11 14
Draumur 13 14 Draumur 16 14

23. mars 2014. Veðrið er ennþá ekki til að hrópa húrra fyrir og þá er gott að dunda í hrossunum inni.

_DSC3958 _DSC3967
_DSC3973 _DSC3974

22. mars 2014.

Sigurbjörg er heima sem stendur út af verkfalli framhaldsskólakennara og temur af fullu. Hún er nú ekkert óánægð með það. Hér koma nokkrar myndir af henni og Fagra-Blakk ( undan Forseta og Nös) en hann er albróðir Fjaðrar sem fór i góð 1. verðlaun í fyrra.

Fagri Blakkur

Fagri Blakkur

Fagri Blakkur 1 Fagri Blakkur 3
Fagri Blakkur 4 Fagri Blakkur

  18. mars 2014.

Elín og Sanne hafa verið að vinna í tveimur tveggja vetra graðhestum sem við eigum. Þeir heita Gullfoss og Vitnir. Gullfoss er undan Evítu og Brimni Ketilstöðum og Vitnir er undan Kolbrúnu og Kjarna Þjóðólfshaga. Vitnir er hálfbróðir stóðhestins Hreyfils.Það gengur vel með þá. Þeir læra mikið á því að vera teknir fram og kembt og einnig eru þeir hringteymdir og kennt að beygja og víkja undan fæti. Hér koma nokkrar myndir af þeim. Báðir þessir ungfolar eru lausir til útleigu í vor.

Vitnir

Vitnir

Vitnir

Vitnir

Gullfoss

Gullfoss

Gullfoss

Gullfoss

10. mars 2014.

Nú er Jessica farin og  2 nýjar tamningakonur eru komnar í staðinn. Þær heita Elín og Sanne og koma frá Svíþjóð. Þær hafa verið á hestaskóla sem heitir Stromsholm og kunna heilmikið. Þær ætla að hjálpa okkur við tamningarnar í nokkra mánuði.

Sæll og Sanne

Sæll og Sanne

Völundur og Elín

Völundur og Elín

22. febrúar 2014.

Fyrsta mót Uppsveitardeildarinnar var haldið í gærkvöldi. Keppt var í 4 gangi. Við tilheyrum liðinu Top Reiter. Góð stemming var í höllinni og mikið af góðum hrossum. Sigurbjörg Bára keppti á Blossa og höfnuðu þau í 2 sæti eftir forkeppni. Í úrslitum héldu þau sín sæti með einkunina 6,83. Í fyrsta sæti var Þórarinn Ragnarsson á hestinum Þyt frá Efsta-Dal 2 með einkunnina 7.03 og í 3 sæti var Sólon Morthens á hestinum Krumma frá Dalsholti með einkunnina 6,60.

Úrslit í 4 gangi Uppsveitardeildarinnar..

Úrslit í 4 gangi Uppsveitardeildarinnar..

Litð Top Reiters sem keppti í 4 gangi. Ragnheiður Hallgrímsdóttir Sigurbjörg Bára Björnsdótir og Berglind Ágústsdóttir

Litð Top Reiters sem keppti í 4 gangi. Ragnheiður Hallgrímsdóttir, Sigurbjörg Bára Björnsdótir og Berglind Ágústsdóttir

17 febrúar 2014.

Fyrsta vetrarmót Smára var haldið um helgina. Kalt var í veðri en keppendur létu það ekki á sig fá. Sigurbjörg Bára ákvað að spreyta sig á Einingu frá Vorsabæ 2 en hún er undan Kolfreyju og Forseta. Þær höfnuðu í 3 sæti í ungmennaflokki.

Eiríkur Arnarsson og Kráka frá Sóleyjarbakka, Björgvin Ólafsson og Sveipur frá Hrepphólum, Sigurbjörg Bára Björnsdóttir og Einign frá Vorsabæ2, Gunnlaugur Bjarnason og Jóra frá Húsatóftum, Björgvin Viðar Jónsson og Spá frá Álftarósi, Guðjón Hrafn Sigurðsson og Sóley frá Syðri-Hofdölum og Guðjón Örn Sigurðsson og Gerpla frá Skollagróf

Eiríkur Arnarsson og Kráka frá Sóleyjarbakka, Björgvin Ólafsson og Sveipur frá Hrepphólum, Sigurbjörg Bára Björnsdóttir og Einign frá Vorsabæ2, Gunnlaugur Bjarnason og Jóra frá Húsatóftum, Björgvin Viðar Jónsson og Spá frá Álftarósi, Guðjón Hrafn Sigurðsson og Sóley frá Syðri-Hofdölum og Guðjón Örn Sigurðsson og Gerpla frá Skollagróf

10.febrúar. 2014

Hér má sjá skemmtilegt myndband frá dvöl þeirra Matilda og Anja sem voru hjá okkur í verknámi frá Landbúnaðarskólanum Dille Gård í Svíþjóð. Þær komu til okkar síðastliðinn ágúst og voru í 5 vikur og stóðu þær sig með sóma.

 

http://www.youtube.com/watch?v=sgEVx767rGQ

5.febrúar. 2014

Veðráttan í haust og meirihluta janúarmánaðar hefur verið leiðnleg til tamninga. Hvasst dag eftir dag og kalt. Hefur reiðhöllin komið að góðum notum við tamningar. Það hefur ekki snjóað mikið en þó gerði snjó í fyrri hluta janúarmánaðar sem tók fljótlega upp og þá tóku við svell á vegum og túnum sem aldrei ætlaði að taka upp. Hér koma nokkrar snjómyndir.

IMG_0011 IMG_0013 IMG_0016 IMG_0017 IMG_0030 IMG_0033 IMG_0038

1.febrúar 2014

Tamnigar eru nú komnar á fullt. Búið að járna öll hross sem tekin voru inn um áramótin og raka þau undir faxi og kvið.

Sigurbjörg Bára á Skör og Jessica á Sæl.

Sigurbjörg Bára á Skör og Jessica á Sæl.

18.jan. 2014

Míla undan Moldu og Hreyfli fundum við liggjandi í afveltu rétt fyrir jólin. Hún var skorðuð á milli þúfna og orðin ansi slöpp en með læknishjálp og hjúkrun hafðist hún á lappir og virðist ætla að ná sér að fullu. Sigurbjörg Bára tók sig til og baðaði hana einn daginn. Það þótti henni mjög gott og vill láta knúsa sig og klappa alla daga síðan.

Míla þvegin.

Míla þvegin.

8.jan. 2014

Eftir haust tamningarnar var hesthúsið háþrýstiþvegið hátt og lágt. Og svo voru tekin inn hross aftur um áramótin. Jessica Olsson frá Svíþjóð kom til okkar 7. janúar og ætlar að vera að vinna hjá okkur til 20 febrúar.

Jessica

Jessica.

6.jan. 2014

Birnir Snær dóttursonur okkar átti afmæli 6 janúar og bauð okkur í veislu. Hann varð 5 ára og mikil kátina hjá honum með það.

Byrnir Snær

Byrnir Snær

Blásið á kertið á afmæliskökunni.

Blásið á kertið á afmæliskökunni.

Hluti af afmælisgestum.

Hluti af afmælisgestum.

Afmælisgjafirnar skoðaðar.

Afmælisgjafirnar skoðaðar.

1. jan. 2014

Jólin voru ánægjuleg eins og vant er og vorum við í rólegheitum heima og nutum gjafa og góðs matar. En á gamlárskvöld vorum við boðin til Reykjavíkur og vorum við þar hjá Möggu, Kidda og Birni Snæ í góðu yfirlæti.

Sigurbjörg Bára, Jón Emil ásamt Emelíu ömmu

Sigurbjörg Bára, Jón Emil ásamt Emelíu ömmu

Gamlárskvöld.

Gamlárskvöld.

 

29. nóv 2013

Eftir að við slepptum 3ja vetra hesttryppunum tókum við inn hryssurnar, en þær eru ekki nema tvær í okkar eigu. Það eru þær Mardöll undan Kolbrúnu og Mjölni frá Hlemmiskeiði og svo er það hún Eva undan Evítu og Hlekk frá Lækjamóti. Við erum einnig að temja eina 3ja vetra hryssu sem er ekki í okkar eigu en úr okkar ræktun. Hún heitir Ör og er undan Pílu og Hlekk. Ör er alsystir Skarar sem við tömdum í fyrra. Ör er í eigu norskra konu sem keypti hana af okkur veturgamla. Þessar hryssur eru allar mjög efnilegar, þægar og taka tamningunni vel. Mardöll fer um á tölti og brokki. Hún á eftir að nýta hálsinn sem er fallegur vel. Eva er ekki stór enda frumburður móður sinnar. Hún er ekki að flíka góðgangi en fer um á stórstígu brokki og með háum hreyfingum Ör er mikið ólík alsystur sinni. Hún fer um á bæði brokki og tölti og ekki væri ég hlessa á því að seinna meir kæmi skeið að gagni. Hún er með háar hreyfingar og alþæg og á eftir að nýtast eiganda sínum vel í framtíðinni. Þessar hryssur munum við halda eitthvað áfram með fram undir jól og svo fá þær frí, en Mardöll og Evu verður haldið áfram með eftir ármót.

Eva undan Evítu og Hlekk Lækjamót

Eva undan Evítu og Hlekk Lækjamót

Ör undan Pílu og Hlekk Lækjamót.

Mardöll undan Kolbrúnu og Mjöli Hlemmiskeiði

21.nóv. 2013

Smalamennsku og sláturtíð er lokið. Fallþungi lamba var góður á þeim 73 lömbum sem fóru í slátrun, en þau lögðu sig á 18,3 kg. meðal þunga. Heimtur á lömbum og fullorðnu fé var 100% sem getur varla orðið betra. Við völdum 12 ásetningsgimbrar og svo fá 2 lömb í viðbót að lifa sem voru graslömb eftir að hafa misst móður sína og eru því smá.

Smalamennska.

Nú er féð er komið á hús og búið að rýja.

14. nóv 2013

Okkur áskotnaðist útungunarvél í haust og ákváðum við að spreyta okkur á því að unga út hænuungum. Við eigum 7 hænur sem eru orðnar nokkuð gamlar en eru þó enn að verpa. Var því farið af stað og fengin egg annars staðar frá og sett í vélina. Það fór svo að 13 ungar klöktust út, en síðan á eftir að koma í ljós hvert kynjahlutfallið verður. Þetta er mjög spennandi og gaman að fylgjast með hegðun unganna.

12. nóv. 2013

Folaldasýning Glaums var haldin hér í reiðhöllinni í fyrradag. Góð þátttaka var og mikið af skemmtilegum folöldum. Í hryssnaflokknum vann Gullbrá frá Steinsholti undan Þórólfi frá Prestbæ og Tíbrá frá Hvítárholti. Hún var einnig valin af áhorfendum fallegasta folald sýningarinnar. Þá vann Djarfur frá Fjalli í flokki hestfolalda, en hann er undan Djákna frá Hellulandi og Glódísi frá Fjalli, en Glódís er Forsetadóttiir. Við fórum með 2 folöld, Hrafnfaxa undan Hrinu og Hreyfli frá Vorsabæ 2. og Erlu undan Evítu og Loka Selfossi. Erla lenti í 5. sæti í hryssnaflokki.

Eigendur efstu hestfolalda.

Eigendur efstu merfolalda

10 nóv. 2013

Nú erum við búin að útskrifa 3ja vetra hesttryppin í bili sem við höfum verið að frumtemja seinasta mánuð. Fjögur af þeim eru undan Stirni frá Vorsabæ 2. sem fór til Frakklands 2010. Tvö tryppi eru undan Hlekk frá Lækjamóti og eitt er undan Forseta frá Vorsabæ 2. Það er búið að ganga vel með þau en mismikið var átt við þau. Þar spilar m.a. inn í andlegur þroski og skilningur og einnig getur ýmislegt komið í ljós þegar farið er yfir tennur í þeim. T.d. reyndist Birnir undan Stirni og Nös vera með úlfstönn og þurfti að taka hana og síðan gefa honum frí frá reið, enda gerir það lítið til, þar sem hann var þægur og virtist vera fljótur að læra. (Hinum var riðið mismikið einnig eftir andlegri getu og skilningi.) Við notum ganginn í hesthúsinu mikið fyrstu skiptin og ríðum þeim þar bæði einum og einnig í fylgd. Þegar að þau eru farin að svara vel beisli þá förum við inn í reiðhöll og ríðum þeim þar í samreið með fullorðnum hesti. Við lónserum hrossin ekki mikið með löngum taum en látum þau frekar læra að ganga í kringum okkur og er mikill munur á hversu liðug hrossin eru. Sum eiga mjög erfitt með að sveigja sig í aðra áttina og þíðir þá lítið að fara á bak og reyna að láta þau hlíða taum í þá áttina fyrr en þau hafa lært að sveigja sig á réttan hátt.

7. nóv 2013

Það er bjart yfir ferðaþjónustunni á landsvísu og mikill uppgangur. Það sem við verðum vel vör við er að ferðamannatímabilið er að lengjast sem er ágætt. En ferðamennirnir þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni og það þarf að passa það að ferðamannastaðir séu aðgengilegir fyrir þá. Norðurljósin hafa mikið aðdráttarafl og verðum við vör við það t.d. voru hér gestir frá Frakklandi i lok október sem fóru á hestbak hjá okkur í nokkur skipti  og svo á kvöldin var einn settur á vakt til að fylgjast með norðurljósunum. Hinir voru svo  vaktir þegar norðurljósin sáust dansa um himininn.

Sænskir gestir.

 

15. okt 2013

Við höfum verið að eiga við 4 vetra tryppin og gengur það mjög vel. Þau voru frumtamin seinasta haust og er greinilegt að þau hafa litlu gleymt. Það eru 4 tryppi undan Forseta, 1 er undan Stæl frá Neðra-Seli og 1 er undan Stála Kjarri. Þau eru þæg og halda vel áfram og ganglagið gott. Það verður gaman að halda áfram með þau eftir áramótin. Skör undan Pílu og Hlekk frá Lækjamóti var einnig frumtamin í fyrra haust og svo tamin meira seinna um veturinn og fram á sumar. Hún er skemmtilegt tryppi. Var frekar klárgeng en kom með tölt og á eftir að vera mjög góð klárhryssa með góðan fótaburð.

Ánægja undan Hviðu og Forseta

Fífill undan Nös og Stála Kjarri

Freyja undan Kolfreyju og Forseta

Sæll undanTign og Stæl Neðra-Seli

Vígar undan Tísku og Forseta

Skör undan Pílu og Hlekk Lækjamóti

Völundur undan Gasalegu -Skutlu og Forseta

3. okt 2013

Við héldum 13 hryssum í sumar og þar af voru 4 nýjar hryssur teknar inn í ræktun. Lipurtá átti að vísu að vera tekin inn í ræktun í fyrra og var þá hjá Þresti frá Efri-Gegnishólum en kom geld frá honum. Núna var hún hjá Hreyfli og einnig Fjöður og Hátíð sem báðar voru sýndar í vor fóru undir frænda sinn hann Hreyfil. Brúnblesu frá Krossi var haldið líka í fyrsta sinn í sumar, einnig undir Hreyfil.

Þá fóru þær Nös, Snerpa, Hrina, Tíska og Píla undir Hreyfil. Kolbrún fór undir Topp frá Auðsholtshjálegu, Evíta fór undir Hrannar frá Skeiðvöllum og Molda fór undir Hrym frá Hofi. Þessar hryssur eru allar staðfestar með fyli, en auk þess héldum við Silfurdísi undir Forseta í haust þegar hún var farin að styrkjast eftir fótbrotið. Hún hélt reyndar ekki, sem var kannski ekki skrítið eftir þær óeðlilegu aðstæður sem hún lenti í að þurfa að vera inni í stíu mest allt sumarið.

Hins vegar fyljuðust allar aðrar hryssur sem komu undir Forseta og svo var aðeins 1 aðkomuhryssa geld eftir Hreyfil. Ekki slæmt fanghlutfall hjá stóðhestunum okkar hér á bænum.

Forseti og Silfurdís

16.sept. 2013.

Hinar árlegu Reykjaréttir fóru fram á laugardaginn. Heimilisfólkið ásamt gestum fór ríðandi í réttirnar. Hjá okkur dvöldu í bústaðnum foreldrar og systir Önju sem er að vinna hér núna og þau fóru með okkur  ríðandi til að upplifa alvöru réttarstemningu. Gonsi og Gunna voru hjá okkur og Birnir Snær ömmu- og afastrákurinn var einnig hér um helgina. Þá komu Ingimar og Emilia í Hólaborg ásamt vinnufólki og fleirum ríðandi kvöldið áður og fylgdu okkur líka í réttirnar fram og til baka.

1.sept 2013

Hjá okkur eru nú að vinna 2 ungar stúlkur frá Svíþjóð. Þær eru verknemar frá Dillegård og munu dvelja  hér í 5 vikur. Þær heita Anja og Matilda. Við erum nú að vinna í fjögra vetra tryppunum sem byrjað var á í fyrrahaust og í gær tókum við  inn 7 þriggja vetra fola sem við ætlum að frumtemja í haust.

Anja og Matilda.

24.ágúst 2013.

Nanna S. Mikkelsen (var að temja hjá okkur fyrir mörgum árum) og faðir hennar Kalle komu í heimsókn í nokkra daga og voru svo að fara í 4 daga hestaferð með Gesti á Kálfhóli. Stefanía ákvað að skella sér með. Ferðin gekk vel og komu allir ánægðir til baka.

Nanna og Kalle

20. ágúst 2013.

Sigurbjörg Bára tók þátt í Suðurlandsmótinu sem haldið var á Hellu um seinustu helgi. Hún keppti í 4-gangi  ungmenna á Blossa og tókst sýningin mjög vel. Þau lentu í 2. sæti með einkunina 6,70 og voru hársbreidd frá 1 sæti.

Sigurbjörg Bára og Blossi í góðum gír.

Stoltur eigandi.

Verðlaunahafar.

1. ágúst.2013

Silfurdís er að jafna sig eftir beinbrot sem hún varð fyrir þann 31. maí, sennilega slegin af öðru hrossi úti í gerði. Við nutum góðrar aðstoðar dýralæknanna í Sandhólaferju sem hafa myndað brotið sem lá þvert í gegnum  olnbogabeinið í vinstra framfæti, rétt fyrir neðan liðinn. Silfurdís var látin halda til í stíu í hesthúsinu í 8 vikur og þá loksins fórum við að teyma hana fram úr stíunni og láta hana labba um. Það er greinilegt að hún á langa sjúkraþjálfun framundan til að styrkja vöðva og sinar áður en hún má fara að hreyfa sig frjáls og leika sér. Silfurdís er afbragðs gott reiðhross og hefur einnig gengið mjög vel í keppni með eiganda sínum Sigurbjörgu Báru. Sigurbjörg  hafði hugsað sér að leiða hana til stóðhests nú í sumar, en nú er bara að sjá hvað verður.

Sigurbjörg Bára gefur Silfurdís nýslegið gras.

25. júlí 2013

Folaldið hennar Tísku sem heitir Sóley hefur verið veik að undanförnu, en er núna loksins orðin frísk.   Sóley fékk hita og þunna skitu þegar hún var 2ja vikna gömul. Eftir fúkkalyfjagjög hvarf hitinn, en skitan hélt áfram í 10 daga þrátt fyrir ýmsar aðferðir sem við reyndum. Við fengum góða aðstoð hjá Dýralæknamiðstöðinni á Hellu og einnig fengum við uppskrift af galdrablönudu til að gefa henni hjá Ingimar Sveinssyni. Sóley hefur sýnt mikinn lífsvilja að komast í gegnum veikindin og er hún núna mjög gæf og gaman að sjá hana fríska á ný.

Tísla og Sóley.

21.júlí 2013.

Hið árlega Gæðingamót Smára var haldið í Torfdal á Flúðum í gær. Veðrið var með besta móti og sást sólin meira að segja í smá tíma. Sigurbjörg Bára keppti á Fjöður í ungmennaflokki og uppskar 1. sæti, Fjöður er undan Nös frá Vorsabæ 2 og Forseta. Fjöður fór í góð 1. verðlaun á kynbótasýningu í vor. Við feðgarnir eigum Fjöður saman en Sigurbjörg Bára fær að halda henni í sumar fyrir þjálfunina á henni. Hún hefur ákveðið að halda henni undir Hreyfil og fer hún til hans fljótlega eftir að við höfum sónað frá honum.

Sigurbjörg Bára Björnsdóttir/Fjöður frá Vorsabæ II. Gunnlaugur Bjarnason/ Flögri frá Kjarnholtum I Jón Bjarnason/Kjarkur frá Skipholti III

19.júlí 2013.

Sónað verður frá Hreyfli þriðjudaginn 23. júlí. Við munum hafa samband við eigendur hryssna sem eru í girðingunni. Hægt verður að bæta inn merum hjá Hreyfli eftir 23. júlí.

Hreyfill

13. júlí 2013.

Elín Vidberg kom í heimsókn og dvaldi hjá okkur í nokkra daga. Hún reið út og þjálfaði hrossin hérna á bænum. Elín kom upphaflega til okkar 2010 sem verknemi frá hestaskóla í Svíþjóð sem heitir Wången. Hún kom svo aftur árið 2011 og vann hjá okkur í 3 mánuði við tamningar og þjálfun. Hún og fjölskylda hennar hafa einning keypt af okkur nokkur hross t.d. stóðhestinn Segul sem hún er að nota mikið í